20. nóvember 2024

UNICEF: Framtíð barnæskunnar hangir á bláþræði í breyttum heimi 

Ný skýrsla UNICEF í tilefni Alþjóðadags barna útlistar þremur meginþáttum sem krefjast nauðsynlegra aðgerða til að verja líf, velferð og réttindi barna til ársins 2050  – Miklar áskoranir bíða barna í framtíðinni 

Börn í Bangladess leika sér á fleka á Banani vatni í Dhaka. Mynd: UNICEF/UNI526085/Mawa

Framtíð barnæskunnar sjálfrar hangir á bláþræði ef ekki er gripið tafarlaust til nauðsynlegra aðgerða til að verja réttindi barna í breyttum fjölkrísuheimi. Þetta er meðal þess sem fram kemur í árlegri skýrslu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, um stöðu barna í heiminum sem birt er á Alþjóðadegi barna í dag, 20. nóvember. 

Skýrslan „State of the World‘s Children 2024“ ber í ár yfirskriftina „The Future of Childhood in a Changing World“ og spáir fyrir um þrjá meginþætti og hvernig þróun þeirra mun hafa áhrif á líf, velferð og réttindi barna til ársins 2050 og áfram. Þessir þrír þættir eru; aldurssamsetning samfélaga, loftslagsbreytingar og náttúruhamfarir, tækniframfarir. 

  Holskefla breytinga 

„Börn eru að upplifa holskeflu breytinga, allt frá loftslagsáföllum til ógna á Netinu, og ljóst er að þær munu aðeins aukast á komandi árum,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, í tilkynningu með skýrslunni sem kom út í dag. „Spár í skýrslunni sýna hvernig þær ákvarðanir sem þjóðarleiðtogar taka í dag– eða taka ekki –munu skilgreina heiminn sem börn mun erfa. Það þarf meira en bara ímyndunarafl til að skapa betri framtíð árið 2050, það þarf aðgerðir. Áratugaframfarir, einkum fyrir stúlkur, eru í mikilli hættu.“ 

Dökk framtíðarsýn í loftslagsmálum 

Vart þarf að fjölyrða um afleiðingar loftslagsbreytinga sem þegar eru orðnar skelfilegar víða um heim. Árið 2023 var það hlýjasta í sögunni og fram kemur í skýrslunni að á áratugnum 2050-2059 muni loftslags- og umhverfishamfarakrísan breiða úr sér. Átta sinnum fleiri börn muni búa við öfgafullar hitabylgjur, þrefalt fleiri börn búa við hamfaraflóð og tvöfalt fleiri börn við skógarelda í samanburði við fyrsta áratug þessarar aldar. 

Í skýrslunni kemur einnig fram að samfélags- og efnahagsleg staða barna, aldur og heilsa muni skipta miklu máli um hversu mikil áhrif hamfarahlýnunar og vaxandi veðuröfga verða. Og leggur UNICEF áherslu á nauðsyn þess að tryggja skipulega umhverfisáætlun til að verja þau börn sem verst standa og lágmarka hættuna sem þau standi frammi fyrir. 

Áskoranir vegna hækkandi aldurs 

Spár gera ráð fyrir að hlutfall barna af mannfjölda verði hvergi hærra en í Afríku neðan Sahara og í Suður-Asíu árið 2050. En á sama tíma mun hlutfall eldri íbúa heimsbyggðarinnar hækka og börnum þar með fækka hlutfallslega í öllum heimsálfum. Hlutfall barna í Afríku mun enn vera hátt en fara undir 40% frá þeim 50% sem það var á fyrsta áratug þessarar aldar. Á sama tímabili mun hlutfall barna í Austur-Asíu og Vestur-Evrópu vera komið í 17% árið 2050, samanborið við 29% annars vegar og 20% hins vegar í byrjun aldarinnar. Þessar breytingar og ójafnvægi á aldurssamsetningu ríkja mun því eðlilega skapa miklar áskoranir í framtíðinni samkvæmt skýrslunni. 

Von og voði í tækniframförum 

Í skýrslunni kemur einnig fram að tækninýjungar á borð við gervigreind (e. AI) bjóði upp á möguleika en líka hættur fyrir börn, sem eigi í samskiptum við gervigreind í smáforritum, leikföngum, tölvuleikjum og kennsluforritum. En ójöfnuður verður enn ríkjandi í hinni stafrænu þróun. Árið 2024 voru rúmlega 95% íbúa í hátekjuríkjum tengd Netinu í samanburði við aðeins tæplega 26% í lágtekjuríkjum. 

Í skýrslunni er talað um að hátt hlutfall ungmenna í lág- og millitekjuríkjum eigi takmarkað aðgengi að tæknifærni sem muni hafa áhrif á getu þeirra til að nýta stafræn verkfæri til menntunar og starfa á skilvirkan og öruggan máta í framtíðinni. Þessar hindranir eru oft tengdar félags- og efnahagsstöðu, kyni, tungumálakunnáttu og aðgengi.   

En líka góðar fréttir 

Í skýrslunni er þó ekki eintómur barlómur heldur einnig jákvæðar fréttir. Lífslíkur barna við fæðingu munu áfram halda að aukast. Áframhald verður á auknu aðgengi barna að menntun líkt og verið hefur síðustu hundrað árin, þar sem spár gera ráð fyrir að nærri 96% barna á heimsvísu muni hafa lokið að minnsta kosti grunnnámi á árunum eftir 2050. Samanborið við 80% á fyrsta áratug aldarinnar. 

Og bent er á að ef aukið verði við fjárfestingu í menntun og heilbrigðisþjónustu, og strangari umhverfisverndarstefna verði útkoman jákvæðari fyrir börn. Til dæmis muni kynjahlutföll í námi jafnast heldur og draga megi úr þeim umhverfishættum sem börn standa frammi fyrir.  

Barnasáttmálinn í forgrunni til framtíðar 

State of the World‘s Children 2024 leggur áherslu á mikilvægi þess að setja réttindi barna í forgrunn allrar vinnu, stefnumótunar og aðgerða líkt og kveðið er á um í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, útbreiddasta mannréttindasáttmála veraldar. Í skýrslunni er kallað eftir því að mæta þessum áskorunum sem útlistað er í skýrslunni með því að: 

  • Fjárfesta í menntun, þjónustu og sjálfbærum, þrautseigum og sveigjanlegum samfélögum fyrir börn. 
  • Auka loftslagsþolgæði innviða, tækni, nauðsynlegrar þjónustu og félagsþjónustukerfa. 
  • Tryggja tengingu og örugga tæknihönnun fyrir öll börn. 

  Hlustum á framtíðina 

Í tilefni Alþjóðadags barna, afmælisdags Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, setti UNICEF í gang verkefnið „Hlustum á framtíðina“ en hluti þeirrar herferðar var að biðja börn um að skrifa bréf um hvernig þau vilja að heimurinn verði árið 2050. Skilaboð hafa borist frá börnum um allan heim, allt frá Gaza-borg til Haítí til Tansaníu. Þar sem þau óska þess að vera örugg, heilbrigð og menntuð en einnig varin fyrir stríði og loftslagshamförum. Hægt er að skoða svör barnanna hér. 

„Alþjóðadagur barna er tækifæri fyrir þjóðarleiðtoga til að sýna að þeim er alvara með að virða réttindi og velferð allra barna,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF. 

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér á heimasíðu UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. 

Fleiri
fréttir

20. janúar 2025

Aðgerðaráætlun UNICEF í fyrsta fasa vopnahlés á Gaza
Lesa meira

16. janúar 2025

UNICEF flytur hjálpargögn á hamfarasvæði í Tíbet
Lesa meira

15. janúar 2025

UNICEF fagnar löngu tímabæru vopnahléi á Gaza
Lesa meira
Fara í fréttasafn