17. maí 2023

100 dagar frá jarðskjálftum: UNICEF sendir ákall vegna aðstæðna barna í Sýrlandi og Tyrklandi

Alþjóðasamfélagið verður að styðja við nauðsynlega mannúðaraðstoð og uppbyggingu í þágu milljóna barna í neyð við landamæri Sýrlands og Tyrklands.

Ungur drengur í A'zaz í norðvesturhluta Sýrlands innan um hjálpargögn frá UNICEF.

Hundrað dagar er nú síðan stórir jarðskjálftar skóku Tyrkland og Sýrland með skelfilegum afleiðingum. Milljónir barna og fjölskyldur þeirra eru enn í bráðri neyð og þurfa nauðsynlega á mannúðaraðstoð að halda. UNICEF hefur unnið þrotlaust að því að tryggja aukna aðstoð í þeim samfélögum sem verst urðu úti í skjálftunum en hefur nú sent ákall þar sem skorað er á þjóðarleiðtoga og alþjóðsamfélagið að auka stuðning við aðkallandi verkefni. 

„Í kjölfar skjálftanna hafa börn í báðum ríkjum upplifað ólýsanlegan missi og sorg,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Russell heimsótti hamfarasvæðin á sínum tíma og sá með eigin augum þá eyðileggingu og eymd sem jarðskjálftarnir höfðu í för með sér.

„Skjálftarnir urðu á svæðum þar sem fjölskyldur bjuggu fyrir við erfiðar aðstæður og voru í viðkvæmri stöðu. Börn hafa misst fjölskyldumeðlimi og aðra ástvini, séð heimili sín, skóla og samfélög gjöreyðilögð og líf þeirra hefur umturnast.“

 Russell bendir á að fram undan sé löng og erfið uppbygging á svæðunum og fjölskyldur og börn muni þurfa á áframhaldandi stuðningi og aðstoð að halda.

„Langtímaáhrif hamfara sem þessara eru meðal annars að matvæla- og orkuverð hefur rokið upp, fólk hefur misst lífsviðurværi sitt og aðgengi að nauðsynlegri þjónustu. Hundruð þúsunda barna lifa því við enn meiri fátækt en áður. Ef ekki tekst að forgangsraða og auka fjárstuðning og uppbyggingu nauðsynlegra innviða til lengri tíma er ljóst að börn eru í stóraukinni hættu,“ segir Russell.

UNCIEF skorar á alþjóðasamfélagið að forgangsraða í þágu barnvænnar uppbyggingar til að tryggja að þörfum barna sé mætt með því fjármagni sem til er lagt.

UNICEF hefur unnið að því að skala upp starfsemi sína, uppbyggingu og aðstoð á svæðunum síðan jarðskjálftarnir urðu en Russell segir að nú þurfi aukinn stuðning til að tryggja réttindi barna og koma í veg fyrir frekari skaða. Áframhaldandi fjármagn þar til að styðja við heilbrigðis- og næringarþjónustu, vatns- og hreinlætisþjónustu og velferðarþjónustu fyrir börn. Auk skaðaminnkandi úrræða til að draga úr líkum á að banvænir sjúkdómar breiðist út, sem algengt er í kjölfar náttúruhamfara í viðkvæmum samfélögum. 

 UNICEF á Íslandi hefur staðið fyrir neyðarsöfnun vegna jarðskjálftanna í Sýrlandi og Tyrklandi. Um leið og við þökkum öllum sem stutt hafa söfnunina síðan í febrúar síðastliðnum bendum við á að enn er hægt að leggja börnum á landamærum Tyrklands og Sýrlands lið með fjárframlögum hér.

Fleiri
fréttir

20. nóvember 2024

UNICEF: Framtíð barnæskunnar hangir á bláþræði í breyttum heimi 
Lesa meira

20. nóvember 2024

Ungmenni fá orðið á Alþjóðadegi barna: „Kæra fullorðna fólk– Hlustið á okkur“
Lesa meira

18. nóvember 2024

Þúsund dagar af stríði í Úkraínu: 16 börn drepin eða særð í hverri viku
Lesa meira
Fara í fréttasafn